Hvatninga-verðlaun Nemastofu atvinnulífsins
Hvatningaverðlaun Nemastofu atvinnulífsins eru veitt fyrirtækjum sem hafa náð góðum árangri í þjálfun og kennslu nema á vinnustað og eru almennt góðar fyrirmyndir sem lærdómsfyrirtæki í viðkomandi faggreinum.
Samvinna um kennslu og þjálfun nema á milli framhaldsskóla og fyrirtækja skilar góðum árangri og undirbýr nema vel undir störf og hæfnikröfur á vinnumarkaði. Þessi samvinna framhaldsskóla og fyrirtækja er lykillinn að góðum árangri í starfsmenntakerfinu.
Hvatningaverðlaun Nemastofu atvinnulífsins 2022 hljóta fyrirtækin: Tímadjásn, bílaumboðið BL og TG raf
Fyrirtækið Tímadjásn – gullsmíðaverkstæði og skartgripaverslun, var stofnað árið 1978 af Kristni Sigurðssyni gullsmið og er í dag rekið af þeim feðgum Kristni og Helga Kristinssyni gullsmið. Fyrirtækið hefur starfað óslitið í 44 ár og hefur Kristinn nánast allan þann tíma verið með nema á námssamning í gull- og silfursmíði.
Bilaumboðið BL var stofnað árið 2011 með samruna tveggja fyrirtækja. Hjá BL starfa 255 manns, þar af um 80 bifvélavirkjar og fyrirtækið er með samtals 11 nema á námssamningi í bíliðngreinum. Auk þess að fylgja verkefnum vinnustaðanáms þá taka nemarnir þátt í skipulegu fræðslustarfi fyrirtækisins sem greiðir einnig allan námskostnað nemanna.
TG raf var stofnað árið 2004 á grunni fyrirtækisins Rafborg sem var rekið af afa og síðar föður Tómasar Guðmundssonar rafvirkjameistara – Tómas er því þriðji ættliður sem rekur rafverktakafyrirtæki í fjölskyldunni. Við stofnun TG raf varð til öflugt fyrirtæki með mjög fjölþætta starfsemi og þjónustu við skip og sjávarútveg, iðnað og mannvirki með samtals um 30 starfsmönnum, þar af fimm nema. Frá árinu 2015 hefur fyrirtækið aðstoðað starfsmenn sem hafa ekki lokið námi að ná sér í réttindi.